Um sjóðinn
Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja (TVF) er sjálfseignarstofnun sem starfar skv. lögum nr. 98/1999, með síðari breytingum. Markmið með lögunum er að veita innstæðueigendum og viðskiptavinum fjármálafyrirtækja lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við ákvæði laganna og laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.
TVF starfar í þremur deildum, þ.e. innstæðudeild, verðbréfadeild og skilasjóði. Um starfsemi innstæðudeildar og verðbréfadeildar er fjallað í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999. Um framlög til skilasjóðs sem og ráðstöfun fjármuna sjóðsins fer samkvæmt lögum nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, en TVF hefur með lögum verið falin umsýsla sjóðsins sem felst einkum í varðveislu og ávöxtun fjármuna sjóðsins.
Viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og, ef við á, lánafyrirtæki, rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða, skulu eiga aðild að innstæðu- og verðbréfadeild sjóðsins, enda hafi þeir staðfestu hér á landi. Sama gildir um útibú þessara aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins og í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Aðildarfyrirtæki bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram lögbundin framlög til hans. TVF er undir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Framkvæmdastjóri TVF er Brynjar Kristjánsson.
Í stjórn sjóðsins eru:
Þóra M. Hjaltested, stjórnarformaður
Hersir Sigurgeirsson
Lilja Rut Jensen
Tinna Finnbogadóttir
Tilvísun í lög
Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja (áður Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta) var stofnaður 28. desember 1999 og um sjóðinn gilda lög nr. 98/1999, með síðari breytingum.
Á grundvelli laganna hefur verið sett reglugerð nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum.
Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) ásamt Noregi og Liechtenstein. Sem aðila að EES ber Íslandi að taka upp tilskipanir Evrópusambandsins (ESB) er lúta að innri markaði fyrir fjármálaþjónustu og neytendavernd, í samræmi við ákvarðanir sameiginlegu EES nefndarinnar. Ákvæði laga nr. 98/1999 byggja að mestu á Evrópulöggjöf, en reglur laga um TVF varðandi innstæðudeild byggja í grunninn á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB um innlánstryggingar en tilskipuninni var ætlað að tryggja ákveðna samræmingu í innlánstryggingarvernd innan ESB og EES. Ný tilskipun 2014/49/ESB um innstæðutryggingakerfi var innleidd í apríl 2014 á vettvangi ESB og hefur hún verið innleidd í ríkjum Evrópusambandsins, en hefur ekki verið tekin upp í EES samninginn og hefur því ekki verið innleidd í íslensk lög. Ákvæði laganna um verðbréfadeild byggja að miklu leyti á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 97/9/EB um bótakerfi fyrir fjárfesta. Um skilasjóð gilda lög nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, en TVF annast umsýslu sjóðsins.
Iðgjöld
Innstæðudeild
Innstæðudeild skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tiltækum fjármunum sem nema að lágmarki 0,8% af tryggðum innstæðum allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi, en innstæðudeild er fjármögnuð með iðgjöldum frá aðildarfyrirtækjum. Eignir innstæðudeildar eru nokkuð umfram framangreint lágmark og í júní 2022 voru samþykkt lög um breytingu á lögum nr. 98/1999, sem fólu í sér að innheimtu iðgjalda í innstæðudeild sjóðsins skyldi hætt og greiða aðildarfyrirtæki innstæðudeildar því engin iðgjöld til deildarinnar frá gildistöku laganna.
Verðbréfadeild
Heildareign verðbréfadeildar sjóðsins skal nema að lágmarki 100 milljónum króna, en verðbréfadeild er fjármögnuð með iðgjöldum frá aðildarfélögum, sbr. 7. gr. laga nr. 98/1999. Eignir innstæðudeildar hafa verið umfram lögbundið lágmark síðastliðin ár, en þegar svo háttar til er einungis innheimt iðgjald frá nýjum aðildarfyrirtækjum deildarinnar skv. 6. mgr. 7. gr. laga nr. 98/1999 í fimm ár frá því að viðkomandi fyrirtæki hefur starfsemi hér á landi.
Skilasjóður
Um greiðslur í skilasjóð fer samkvæmt lögum nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.