Sjóðurinn er skuldbundinn til að greiða innlánseigendum/fjárfestum:
Ef aðildarfyrirtæki er ekki fært um, að mati Fjármálaeftirlitsins, að inna af hendi greiðslu á andvirði tryggðrar innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við gildandi skilmála. Álit Fjármálaeftirlitsins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að það fær fyrst staðfestingu á að aðildarfyrirtæki hafi ekki greitt viðskiptavini.
Ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til slitameðferðar.
Fjárhæð til greiðslu:
- Innstæðudeild
Greiðslur til innstæðueigenda
Komi til greiðsluskyldu innstæðudeildar sjóðsins gagnvart viðskiptavinum aðildarfyrirtækja sjóðsins, skulu greiðslur innstæðudeildar til hvers innstæðueiganda nema heildarfjárhæð tryggingarhæfra innstæðna hans hjá hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki, þó aldrei hærri fjárhæð en að jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum. Hrökkvi eignir innstæðudeildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum skal greiðslu úr þeirri deild skipt þannig milli kröfuhafa að þeir fái bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir deildarinnar hrökkva til. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu. Innstæðudeild skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tiltækum fjármunum sem nema að lágmarki 0,8% af tryggðum innstæðum allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi. Hrökkvi eignir innistæðudeildar ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum. Komi til greiðslu úr innistæðudeild sjóðsins yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.
Greiðslur til fjárfesta úr verðbréfadeild
Komi til greiðsluskyldu úr verðbréfadeild sjóðsins, skulu greiðslur verðbréfadeildar til viðskiptavina aðildarfyrirtækja nema andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf, sem aðildarfyrirtæki er ófært um að inna af hendi. Hrökkvi eignir verðbréfadeildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum skal greiðslu úr þeirri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra er bætt að fullu allt að 20.887 evrum en allt sem umfram er þá fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir deildarinnar hrökkva til. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu. Heildareign verðbréfadeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 100 millj. kr. Hrökkvi eignir verðbréfadeildar ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum. Komi til greiðslu úr verðbréfadeild sjóðsins yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi. Krafa skal reiknuð miðað við eign viðskiptamanna aðildarfyrirtækis þann dag sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit, eða þann dag sem úrskurður er kveðinn upp um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta. Miða skal við þann dag sem fyrr kemur upp.
Greiðslur og greiðslufrestur:
Hvíli greiðsluskylda á sjóðnum gagnvart innstæðueiganda ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en þremur mánuðum frá því að álit Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir, eða úrskurður hefur verið kveðinn upp um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta.
Hvíli greiðsluskylda á sjóðnum gagnvart viðskiptavini aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lögmæti og fjárhæð kröfu er staðfest.
Fjármála- og efnahagsráðherra getur við sérstakar aðstæður, að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins, veitt sjóðnum í þrígang allt að þriggja mánaða frest til viðbótar við fyrri frest.
Hvað tryggir sjóðurinn:
Sjóðurinn tryggir innstæður, verðbréf og reiðufé.
Með innstæðu er átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum um umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna. Með verðbréfum er átt við verðbréf sem eru í vörslu, umsjón eða umsýslu aðildarfyrirtækis og því ber að endurgreiða eða standa skil á samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti aðildarfyrirtækis og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum. Með reiðufé er átt við innborgað reiðufé fjárfestis til aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf.
Eftirfarandi er undanskilið tryggingu:
innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
innstæður sem eru ekki skráðar á nafn,
innstæður lífeyrissjóða aðrar en hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun,
innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning,
eiginfjárgrunnur lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eins og hann er samsettur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki,
innstæður fjármálastofnana eins og þær eru skilgreindar í lögum um fjármálafyrirtæki,
innstæður verðbréfafyrirtækja í skilningi laga um fjármálafyrirtæki,
innstæður vátryggingafélaga og endurtryggingafélaga eins og þau eru skilgreind í lögum um vátryggingastarfsemi,
innstæður sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
skuldabréf útgefin af lánastofnun og skuldbindingar vegna eigin víxla, svo og skuldaviðurkenningar.
Skilasjóður:
Í lögum nr. 70/2020 er fjallað um starfrækslu sérstaks fjármögnunarfyrirkomulags sem nefnist skilasjóður. Sjóðurinn skal varðveittur sem afmörkuð deild í TVF. Stjórn TVF fer með umsýslu skilasjóðs, en skilavald tekur ákvarðanir um greiðslur úr skilasjóði. Stærð skilasjóðs skal að lágmarki vera 1% af tryggðum innstæðum allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi. Skilavaldið getur notað fjármuni úr skilasjóði ef nauðsyn krefur til að tryggja skilvirka beitingu skilaúrræða í samræmi við lög nr. 70/2020.
Ráðstafa má fé úr skilasjóði til að:
ábyrgjast eignir og skuldbindingar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, dótturfélags, brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags,
veita lán til fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, dótturfélags, brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags,
kaupa eignir fyrirtækis eða einingar í skilameðferð,
greiða fjárframlag til brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags,
greiða félagsaðilum eða lánardrottnum bætur í samræmi við 80. gr. laga nr. 70/2020,
greiða fyrirtæki eða einingu í skilameðferð fjárframlag í stað þess að fram fari niðurfærsla eða umbreyting á tilteknum skuldbindingum lánardrottna við eftirgjöf, þ.e. þegar eftirgjöf er beitt sem skilaúrræði og tilteknir lánardrottnar eru að hluta eða öllu leyti undanskildir eftirgjöf í samræmi við 56. og 57. gr. laga nr. 70/2020,
greiða fyrirtæki eða einingu í skilameðferð fjárframlag í samræmi við 5. mgr. 57. gr. laga nr. 70/2020, eða
framfylgja ráðstöfunum skv. 1.–7. tölul. að ofan
Þátttaka TVF í fjármögnun skilaúrræða:
Gert er ráð fyrir þátttöku innstæðudeildar í fjármögnun skilaúrræða skv. lögum nr. 70/2020 við eftirfarandi aðstæður:
ef eftirgjöf samkvæmt E-hluta X. kafla laganna er beitt, skal TVF greiða fjárhæð sem samsvarar niðurfærslu á tryggðum innstæðum sem hefði átt sér stað samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 55. gr. laganna, ef tryggðar innstæður hefðu fallið undir eftirgjöf, sbr. 2. mgr. 82. gr. laganna; og
ef einu eða fleiri skilaúrræðum, öðrum en eftirgjöf samkvæmt E-hluta X. kafla laganna, þ.e. sölu rekstrar, framsal til brúarstofnunar eða uppskiptingu eignar samkvæmt B-, C- eða D-hluta laganna er beitt skal TVF greiða fjárhæð sem innstæðueigendur tryggðra innstæðna hefðu tapað við slit á lánastofnuninni ef henni hefði verið slitið samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 3. mgr. 82. gr. laganna.